Nassar situr nú í jafngildi lífstíðarfangelsis fyrir kynferðisbrot gegn fjölda fimleikastúlkna og kvenna. Brotin framdi hann í starfi sínu sem læknir bandaríska fimleikasambandsins og Háskólans í Michigan.
FBI fékk upplýsingar um brot Nassar árið 2015 en aðhafðist ekkert. Nassar gat því haldið áfram að brjóta á stúlkum og konum í meira en ár áður en yfirvöld stöðvuðu hann loksins. Einn yfirmanna FBI sem hafði málið á sinni könnu falaðist meðal annars eftir aðstoð forseta fimleikasambandsins til að fá vinnu og laug síðan um það.
Lögmennirnir sem krefja alríkislögregluna bóta segja að stefnendurnir séu um níutíu talsins. Auk Biles eru þar fimleikastjörnur eins og Aly Raisman og McKayla Maroney sem báðar unnu til gullverðlauna á Ólympíuleikum, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Ef FBI hefði staðið sig í stykkinu hefði Nassar verið stöðvaðar áður en hann fékk tækifæri til að mosnota hundruð stúlkna, þar á meðal mig,“ sagði Samantha Roy, fyrrverandi fimleikakona við Michigan-háskóla.
Alríkislögreglan hefur sex mánuði til þess að bregðast við kröfunni. Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákvað fyrir skömmu að það ætlaði ekki að sækja fyrrverandi fulltrúa alríkislögreglunnar til saka fyrir klúðrið við rannsóknina á Nassar.