Bjarni er þingmaður Vinstri grænna úr Skagafirði og annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Hann skrifaði ekki undir álit meirihlutans í nefndinni um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sérstaklega vegna óánægju með að Héraðsvötn í Skagafirði yrðu færð úr verndarflokki í biðflokk.
Við umræður um málið á Alþingi í dag vísaði Bjarni í ályktun sem svæðisfélag VG í Skagafirði sendi frá sér í dag þar sem þess var krafist að Héraðsvötn og Jökulárnar í Skagafirði yrðu settar í verndarflokk.
Sagði Bjarni að með breytingunum sem ríkisstjórnin legði til væru stigin skref aftur á bak í íslenskri náttúruvernd. Þær endurspegluðu ekki faglega niðurstöðu að baki rammaáætlunar um verndargildi ána.
Dapurlegt væri einnig að ekki væri að finna sterkari náttúruverndartaugar í gömlu flokkunum tveimur, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, samstarfsflokkum Vinstri grænna í ríkisstjórn.
„Við eigum ekki að samþykkja framtíðarsýn fortíðarafla sem felur í sér gjörnýtingu íslenskra vatnsfalla og jarðhitasvæða,“ sagði Bjarni.
Getur ekki annað en staðið með fólkinu sínu
Náttúruverndarsamtök stóðu fyrir mótmælum fyrir utan Alþingishúsið á meðan á umræðunni stóð.
„Hér stend ég og get ekki annað en staðið áfram með fólkinu mínu sem hefur háð með mér baráttuna fyrir verndun jökulsánna í Skagafirði,“ sagði Bjarni og beygði af.
„Öllu því fólki sem hefur lagt náttúruverndarbaráttunni lið um land allt og treystir á mig hér og aðra sem hér starfa. Fólkinu sem háir baráttu á öðrum stöðum á landinu af sama eldmóði en ekki síst að standa með náttúrunni sjálfri,“ sagði Bjarni.