Nær allir þeir sem fjöldamorðinginn skaut með hríðskotariffli voru svartir. Hann ók langan veg til úthverfis Buffalo gagngert vegna þess að þar er mikill meirihluti íbúa svartur. Hann er nú ákærður fyrir hatursglæpi og brot á skotvopnalögum í 26 liðum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Fyrir byssumanninum er sagt hafa vakað að koma í veg fyrir að svartir „kæmu í staðinn“ fyrir hvítt fólk. Hann hafi ennfremur viljað verða öðrum hvatning til að fremja sambærileg ódæði.
Byssumaðurinn neitar sök í morðákærum ríkisyfirvalda í New York. Þar er hann einnig ákærður fyrir hryðjuverk en það er í fyrsta skipti sem ákærur eru gefnar út á grundvelli nýrra laga um innanlandshryðjuverkastarfsemi sem ríkisþing New York samþykkti fyrir tveimur árum.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, ætlar að heimsækja Buffalo og ræða við aðstandendur fórnarlamba árásarinnar í dag.
Í kjölfar skotárásarinnar í Buffalo og í grunnskóla í bænum Uvalde í Texas aðeins nokkrum dögum síðar virðast andstæðar fylkingar á Bandaríkjaþingi nálægt því að ná samkomulagi um takmarkaðar aðgerðir til þess að reyna að draga úr byssuofbeldi. Þær tillögur ganga þó mun skemur en þær sem Joe Biden forseti hefur kallað eftir.