Húsnæðis- og mannvirkjustofnun birti í gær mánaðarskýrslu sína um stöðuna á húsnæðismarkaði þar sem sagði að ýmsir mælikvarðar bendi til þess að betra sé að vera á leigumarkaði nú en oft áður. Þó var bent á að blikur væru á lofti og að staðan gæti snúist við á næstu misserum.
Í skýrslunni sagði að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hafi farið lækkandi á föstu verðlagi frá því í byrjun árs og að leiguverðið væru nú orðið lægra en fyrir ári síðan og hafi það ekki mælst lægra að raunvirði síðan í ágústmánuði 2017.
„Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu í apríl sem hlutfall af launum er það lægsta sem mælst hefur en gögnin ná aftur til byrjun árs 2013. Hlutfallið náði hámarki í lok árs 2018 en mælist nú 15,6% lægra en það gerði þá,“ sagði í skýrslu HMS.
Ekki sé miðað við meðallaun
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, segir að það sem samtökin setji út á sé að stofnunin miði við meðallaun. „Við sem erum á leigumarkaði og eigum í samtali við leigjendur höfum þá sterku tilfinningu og teljum okkur vita það að meirihluti leigjenda eru í lægri leiguþrepunum. Það segir sig svolítið sjálft. Fólk sem er á leigumarkaði er fólk sem getur kannski ekki safnað sér fyrir útborgun og þar af leiðandi er ekki réttlátt að okkar mati að miða við meðallaun í landi þegar verið að skoða álag á tekjuhópina.
Meðallaun í landinu eru um 690 þúsund krónur á meðan lágmarkslaun eru 360 þúsund, örorkubætur og framfærslubætur eru 300 þúsund. Á sama tíma er meðalleiguverð í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar, farið yfir 3.300 krónur á fermetrann,“ segir Guðmundur Hrafn.
Óeðlileg þróun fyrir faraldur
Guðmundur Hrafn segir að þegar litið sé á þróunina frá 2011, þegar byrjað var að gefa út vísitölu leiguverðs, og til aprílmánaðar 2020, þegar áhrif Covid á leigumarkaðinn komu fram, þá hafi átt sér stað mjög óeðlileg þróun á leiguverði með tilliti til launa og samfylgni við hækkun fasteignaverðs. Leiguverð hafi hækkað mjög á þessum tíma.
„Við höfum líka borið ástandið á leigumarkaði hér saman við ástandið á leigumarkaðinn í Kaupmannahöfn í Danmörku. Hlutfall meðalhúsaleigu á 100 fermetra íbúð á Kaupmannahöfn er ekki nema 37 prósent af lágmarkslaunum. Á sama tíma er hlutfallið 69 prósent hér. Við erum að benda á það að þeir hópar sem eru á leigumarkaði, að álag leiguverðs á tekjur þeirra er miklu, miklu hærra hér en annars staðar.“
Guðmundur Hrafn bendir sömuleiðis á að meðalleiguverðið hjá Hagstofunni, sé tiltölulega skakkt þar sem fjöldinn allur af leigusamningum, þar sem leiga sé hærri en hjá leigusamningar á vegum félagslegra úrræða, séu ekki þinglýstir og það skekki heildarmyndina.