Á síðasta leiktímabili lék Ægir með Gipuzkoa Basket í næst efstu deild á Spáni, LEB Oro. Gipuzkoa lauk tímabilinu í 11. sæti, aðeins einu stigi frá sæti í úrslitakeppninni. Ægir gerði eins árs samning við Gipuzkoa í fyrra og er því samningslaus eins og er.
Samkvæmt orðrómi sem Karfan.is birti eru líkur á því að Ægir muni spila í Subway-deildinni hér heima á næsta tímabili en Njarðvík og Stjarnan eru sögð hafa áhuga á leikmanninum.
Í samtali við Vísi staðfestir Ægir áhuga frá liðum í Subway-deildinni.
„Þetta þarf ekki að vera feluleikur. Ég get alveg staðfest þennan áhuga frá Stjörnunni, Njarðvík sem og öðrum liðum á Íslandi,“ sagði Ægir Þór við Vísi þegar leitast var eftir viðbrögðum hans.
Þessi 31. árs gamli leikstjórnandi er sem stendur staddur hér á landi en hann hefur verið með körfuboltabúðir hjá bæði Fjölni og Stjörnunni fyrir yngri iðkendur í sumar. Æfingabúðir Ægis standa yfir til 19 ágúst.
Vilja sjá hvað er í boði erlendis þegar markaðurinn fer af stað
Ægir og fjölskylda eru tibúin að skoða tilboð á Íslandi en vilja þó fyrst skoða þá möguleika sem eru í boði erlendis.
„Við erum alveg opin fyrir því að vera heima en höfum áhuga að sjá hvað gerist í útlöndum, markaðurinn þar er varla byrjaður,“ sagði Ægir.
Ægir er uppalinn hjá Fjölni en hefur einnig spilað með KR og Stjörnunni á Íslandi. Ásamt því hefur Ægir spilað í atvinnumennsku í Svíþjóð, Argentínu og með nokkrum liðum á Spáni.