Anton vann sig upp í 2. sæti í sínum undanúrslitariðli, þeim seinni, þegar leið á sundið og kom að lokum í bakkann á 2:08,74 mínútum. Það reyndist næstbesti tíminn hjá öllum sextán keppendunum í undanúrslitunum og Anton fór því af miklu öryggi áfram í átta manna úrslitin.
Anton hafði í undanrásum í morgun synt á 2:09,69 mínútum og bætti því Íslandsmet sitt í greininni í annað sinn í dag, og í þriðja sinn á árinu.
Úrslitasundið í 200 metra bringusundi verður á morgun, klukkan 17:28 að íslenskum tíma.
Fimmtán og sautján ára heimsmeistarar
Summer McIntosh frá Kanada afrekaði það að verða heimsmeistari í 200 metra flugsundi, aðeins 15 ára gömul. Hún synti á 2:05,20 sem er nýtt heimsmet ungmenna.
Kylie Masse, einnig frá Kanada, varð heimsmeistari í 50 metra baksundi á 27,31 sekúndum.
Rúmeninn David Popovici varð svo heimsmeistari í 100 metra skriðsundi, aðeins 17 ára gamall. Hann er annar sundmaðurinn í sögunni til að verða heimsmeistari í þessari vinsælu grein fyrir 18 ára afmælisdaginn, á eftir Andy Coan sem afrekaði það árið 1975.
Popovici synti í dag á 47,58 sekúndum og var 6/100 úr sekúndu á undan næsta manni, Frakkanum Maxime Grousset.