Körfubolti

Martin áfram hjá Valencia

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með Valencia gegn Zenit frá St. Pétursborg í Evrópudeildinni.
Martin Hermannsson í leik með Valencia gegn Zenit frá St. Pétursborg í Evrópudeildinni. getty/Sonia Canada

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við spænska úrvalsdeildarliðið Valencia.

Martin sleit krossband í hné undir lok síðasta tímabils og missir væntanlega af stórum hluta næsta tímabils vegna meiðslanna.

Þrátt fyrir það fékk hann nýjan samning hjá Valencia sem hann gekk til liðs við frá Alba Berlin í Þýskalandi 2020.

Martin var á óskalista stórliða á borð við Real Madrid og Olimpia Milano áður en hann meiddist en nú er ljóst að hann verður áfram hjá Valencia sem komst í átta liða úrslit spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið tapaði fyrir Baskonia í oddaleik en það var einmitt í þeim leik sem Martin sleit krossbandið.

Hinn 27 ára Martin hefur leikið erlendis síðan 2014, fyrst í tvö ár með LIU háskólanum í Brooklyn, svo tvö tímabil í Frakklandi áður en hann færði sig um set til Þýskalands og samdi við Alba Berlin. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu tímabilið 2019-20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×