Kojima er einn þekktasti tölvuleikjaframleiðandi heims og hvað þekktastur fyrir að vera skapari Metal Gear-tölvuleikjaraðarinnar. Eftir að Abe var myrtur á föstudag birti notandi á spjallborðssíðunni 4chan mynd af Kojima, og hún sögð sýna „öfga-vinstrimann með óhreint sakavottorð.“
Í kjölfarið birti franski stjórnmálamaðurinn Damien Rieu mynd af Kojima á Twitter og skrifaði „öfgavinstrið drepur,“ en Rieu er hluti af öfga-hægri hreyfingu í Frakklandi. Þá birtust myndir af Kojima í umfjöllunum grískra og íranskra fréttamiðla í tengslum við morðið á Abe.
Hefði átt að kanna málið
Rieu hefur síðan eytt tístinu og beðist afsökunar á að hafa látið glepjast af falsfréttum. Sagðist hann „á barnalegan hátt hafa tekið gríni sem réttum upplýsingum,“ og að hann hefði átt að kanna málið til hlítar áður en hann birti tístið.
Fyrirtæki Kojima hefur engu að síður birt yfirlýsingu þess efnis að hann kunni að leita réttar síns vegna málsins.
„Kojima Productions fordæmir harðlega dreifingu falsfrétta og orðróma sem stuðla að falsfréttum. Við munum ekki líða slík meiðyrði og munum íhuga að grípa til lagalegra ráðstafana í ákveðnum tilfellum,“ sagði í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér á Twitter.
#KojimaProductions strongly condemns the spread of fake news and rumors that convey false information. We do not tolerate such libel and will consider taking legal action in some cases. pic.twitter.com/fDi0FR9kB0
— KOJIMA PRODUCTIONS (Eng) (@KojiPro2015_EN) July 9, 2022
Sá handtekni játaði morðið
Abe var skotinn á föstudag þar sem hann flutti stuðningsræðu fyrir frambjóðanda í japönsku þingkosningunum sem fram fóru um helgina. Hinn 41 árs Tetsuya Yamagami var handtekinn á vettvangi og hefur síðan játað morðið.
Yamagami notaðist við haglabyssu þar sem hann hafði sagað meirihluta hlaupsins af. Hann hleypti af tveimur skotum og hæfði annað þeirra Abe í bakhliðina. Hann var með skotsár á hálsi þegar honum var komið á sjúkrahús.
Greint hefur verið frá því að Yamagami hafi talið Abe tengjast trúarhópi sem móðir þess fyrrnefnda tilheyrði og gaf háar fjárhæðir, með þeim afleiðingum að hún varð gjaldþrota.