Innipúkinn hefur verið vinsæl tónlistarhátíð undanfarna áratugi fyrir þá sem vilja halda sig í höfuðborginni yfir verslunarmannahelgina. Nú á hátíðin tuttugu ára stórafmæli og það á að halda upp á það með pompi og prakt.
Fjöldi landsþekktra tónlistarmanna kemur fram á hátíðinni í ár, þar á meðal Aron Can, Bríet, Reykjavíkurdætur, Emmsjé Gauti og Flóni auk fjölda annarra.

Löng fæðing að hátíðinni í ár
Ásgeir Guðmundsson, einn skipuleggjanda Innipúkans, segist spenntur að halda hátíðina aftur eftir tveggja ára hlé vegna Covid.
„Þetta er búið að vera löng fæðing að halda þessa hátíð loksins. Við þurftum að aflýsa henni með dags fyrirvara 2020 og fimm daga fyrirvara 2021 þannig maður er orðinn ryðgaður,“ sagði Ásgeir um aðdragandann að hátíðinni.

„Þannig það verður bara helvíti skemmtilegt að koma hátíðinni aftur af stað.“
Aðaldagskrá Innipúkans er innandyra en Ásgeir segir að hátíðin fari að þessu sinni fram í Gamla bíó, á skemmtistaðnum Röntgen og á útisvæði við Ingólfsstræti.
Útisvæðið verður opið öllum, á efri hæðinni á Röntgen verður lítið svið fyrir einyrkja og svo verður stóra sviðið í Gamla bíó fyrir stærri atriði.
Tónleikadagskrá hátíðarinnar fer fram föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, 29. - 31. júlí. Miðasala á hátíðina fer fram á Tix og gildir armband á hátíðina alla helgina. Einnig verður hægt að kaupa miða á stök kvöld hátíðarinnar.