Íslenska liðinu tókst ekki að skora úr föstu leikatriði í leiknum á móti Belgíu og ekki heldur í eina æfingarleiknum á móti Póllandi.
Ólafur hitti fjölmiðlamenn fyrir æfingu liðsins og þar var gott tækifæri til að forvitnast aðeins betur um hans starf í liðinu.
„Ég sé um markverðina og daginn fyrir leik fer ég alltaf yfir föst leikatriði í vörn og sókn. Hvernig þær stilla upp og hverjar eru þeirra hættulegustu leikmenn. Hverjar við þurfum að passa og hverjar þeirra veikleikar eru í hornum. Við förum yfir það á fundi og við þjálfarateymið ákveðum síðan hvernig við viljum hafa hornin og þá sérstaklega sóknarlega,“ sagði Ólafur.
Þarf hann ekki að taka hornin betur fyrir á æfingunum fyrir Ítalíuleikinn?
„Það var svekkjandi að ná alla vega ekki að skora úr einu horni. Við fáum tíu hornspyrnur. Þetta er bara jafn leikur og Belgarnir eru líka sterkir í föstum leikatriðum. Þetta var bara skák þar. Vonandi setjum við þá bara tvö á móti Ítölunum,“ sagði Ólafur.
Það var enginn Belgi að fara að gleyma Dagnýju Brynjarsdóttur í hornum íslenska liðsins.
„Ég geri ráð fyrir því að þeir undirbúi sig eins og við. Við vitum alltaf hverjar sterkustu leikmennirnir eru. Við fengum tvo, þrjú ágætis horn í gær sem hefðu með heppni getað farið inn. Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Ólafur.
