Sterling hefur verið í herbúðum Manchester City síðan árið 2015 og unnið nánast allt sem hægt er að vinna með liðinu. Hann kveður nú félagið eftir sjö ára dvöl og verður hvað úr hverju kynntur sem nýr leikmaður Chelsea.
„Sjö tímabil, ellefu stórir titlar og minningar fyrir lífstíð,“ skrifaði Sterling í kveðju sinni til City.
„Til þjálfarateymisins sem hefur leikið stórt hlutverk í þróun minni á undanförnum árum. Til liðsfélaga minna sem hafa orðið annað og meira en bara menn sem deila sama velli og ég. Til starfsfólksins, til skrifstofufólksins, til stuðningsfólksins sem hefur verið óþreytandi í stuðningi sínum við liðiið, og til allra sem tengjast Manchester City. Virðing mín fyrir ykkur gæti ekki verið meiri.“
— Raheem Sterling (@sterling7) July 13, 2022
„Þvílíkt ferðalag.
Ég er þakklátur fyrir góðu stundirnar og þær slæmu, þar sem þær slæmu hafa stundum reynt á styrkleika minn og úthald, og gert mér kleift að standa hér frammi fyrir ykkur sem besta mögulega útgáfan af sjálfum mér.
Ég kom tvítugur strákur til Manchester. Ég fer héðan sem maður.
Takk fyrir ykkar endalausa stuðning. Það hefur verið heiður að klæðast búningi Manchester City.“
Eins og áður segir gekk Sterling í raðir Manchester City árið 2015 frá Liverpool þar sem hann hóf sinn atvinnumannaferil. Sterling varð þá dýrasti enski knattspyrnumaðurinn frá upphafi.
Á þessum sjö árum hefur Sterling leikið 225 deildarleiki með City og skorað í þeim 91 mark. Með liðinu hefur hann unnið ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum, FA-bikarinn einu sinni og deildarbikarinn fjórum sinnum.