Lögreglan segir árásarmanninn hafa gengið inn í verslunarmiðstöðina með riffil og nokkur magasín full af skotum og hóf hann skothríðina á matsölutorgi verslunarmiðstöðvarinnar, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Fjórir af þeim fimm sem árásarmaðurinn skaut voru konur og þar af ein tólf ára stúlka sem særðist en hún og hinn sem særðist eru í stöðugu ástandi.
Jim Ison, yfirmaður lögreglunnar í Greenwood, hefur hyllt manninn sem skaut árásarmanninn og sagt hann hetju.
„Hetja dagsins er borgarinn sem bar byssu með löglegum hætti og gat stöðvaði árásarmanninn nánast um leið og árásin hófst,“ sagði Ison í gær. Þrátt fyrir að árásin hafi verið stöðvuð tiltölulega fljótt dóu þrír.
Fjölmargar mannskæðar skotárásir hafa átt sér stað í Bandaríkjunum á þessu ári. Skólar, kirkjur, matvöruverslanir og skrúðgöngur eru meðal staða og viðburða þar sem árásarmenn vopnaðir hálfsjálfvirkum rifflum hafa myrt fjölda fólks.