Þegar skoðaðar eru fjórar efstu deildir enskrar knattspyrnu eru aðeins 44 af 92 liðum með allar útgáfur af búningum sínum til sölu á heimasíðum félaganna.
Framleiðendur búninganna hafa lent í ýmsum vandræðum í birgðakeðjunni og því eru ansi margir stuðningsmenn sem munu ekki geta keypt þá búninga sem þeir vilja áður en tímabilið hefst.
Enska B-deildin hefst næstkomandi föstudag, C-, og D-deildirnar á laugardaginn og enska úrvalsdeildin á föstudaginn í næstu viku, 5. ágúst.
Eins og áður segir eru aðeins 44 af 92 liðum sem eru með allar útgáfur af búningnum sínum til sölu. 22 lið geta aðeins boðið upp á aðalbúning liðsins og sjö geta aðeins boðið upp á varabúninginn. Þá eru 19 lið sem geta ekki boðið upp á neina útgáfu af nýjustu búningum liðsins.
Af þessum 19 liðum sem geta ekki boðið upp á neina útgáfu af nýjustu búningum liðsins eru tvö úrvalsdeildarfélög, en stuðningsfólk Crystal Palace og Leeds þarf að gera sér það að góðu að klæðast gömlum treyjum í bili.