Rosenborg gekk fyrr í þessum mánuði frá kaupum á Kristali Mána Ingasyni frá Víkingi en hann gengur formlega í raðir félagsins þegar félagsskiptaglugginn opnar þann 1. ágúst.
Ísak Snær gekk til liðs við Blika í vetur en hafði spilað með ÍA á Akranesi í fyrra. Hann hefur spilað framar á vellinum í Kópavogi en hann gerði með Skagamönnum og hefur skorað ellefu mörk í Bestu deildinni, tvö í Mjólkurbikarnum og þrjú í Sambandsdeildinni.
Rosenborg, who have just bought Kristall Máni, are also seriously interested in signing Ísak Snær from @BreidablikFC. Seems the deal won't happen until Blix's European run is concluded but it then could move very quickly.
— Lucas Arnold (@FotboltiLucas) July 29, 2022
Orðrómar hafa verið á flugi um að Rosenborg hafi áhuga á því að bæta Ísaki Snæ, sem leikur með toppliði Breiðabliks, einnig í sínar raðir. Bretinn Lucas Arnold, fótboltagreinandi hjá Football Radar sem hefur sérhæft sig í íslenskri knattspyrnu, kveðst hafa sterkar heimildir yfir því að félagið sé langt komið í viðræðum við Blika sem vilji þó ekki sleppa honum fyrr en þeir hafa fallið út í Sambandsdeild Evrópu.
Blikar slógu út Buducnest Podgorica frá Svartfjallalandi í gær þar sem Ísak Snær skoraði mark liðsins í 2-1 tapi ytra en þeir grænklæddu komust áfram, 3-2 samanlagt.
Næsta verkefni Breiðabliks í keppninni er ærið þar sem Istanbul Basaksehir heimsækir Kópavog á fimmtudagskvöld.
Sá leikur hefst klukkan 18:45 á fimmtudaginn, 4. ágúst, og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.