Liverpool lenti tvisvar undir gegn Fulham er liðin mættust á Craven Cottage í hádeginu. Liðið kom þó tvisvar til baka með mörkum Darwin Nunez og Mohamed Salah.
Liverpool-liðið var nokkuð ólíkt sjálfu sér þar sem virtist vanta ákefð í liðið gegn Fulham-liði sem mætti því af fullum krafti og gaf ekkert eftir. Klopp segir sitt lið hafa verið slakt í dag.
„Við fengum stig úr virkilega slökum leik af hálfu míns liðs. Hugarfarið var ekki rétt frá upphafi. Við áttum ekkert meira skilið,“ sagði Klopp og bætti við:
„Það er þörf á bættri frammistöðu. Við gerðum öfugt við það sem við ætluðum okkur. Úrslitin snerust ekkert um dómarann,“
Klopp fær töluverðan tíma á æfingasvæðinu til að rétta hlutina af hjá sínum mönnum. Liðið á mánudagsleik næstu helgi og hefur hann því rúma viku til að vinna í spilamennsku liðsins.
Liverpool mætir Crystal Palace á Anfield á mánudaginn kemur.