Greint var frá því fyrr í sumar að ónefndur leikmaður í ensku úrvalsdeildinni ætti yfir höfði sér kæru frá konu fyrir nauðgun. Síðar hefur komið í ljós að leikmaðurinn sem um ræðir er Thomas Partey, miðjumaður Arsenal.
Alls voru þrjár ákærur lagðar fram af tveimur konum gegn Partey en ein þeirra kæra hefur verið látin niður falla. Hinar tvær eru aftur á móti enn til meðferðar.
Þrír aðrir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni hafa á síðastliðnum tólf mánuðum verið ákærðir fyrir ofbeldi gegn konum og enginn þeirra hefur spilað leik eða æft með liði sínu síðan. Þeir eru Gylfi Þór Sigurðsson, sem var hjá Everton, Benjamin Mendy, úr Manchester City, og Mason Greenwood, úr Manchester United.
Arsenal hefur farið aðra leið en áðurnefnd félög og hafa ákærurnar sem hanga yfir Partey engin áhrif haft á hans stöðu hjá félaginu. Hann hefur æft með félaginu og spilaði allan leikinn fyrir Arsenal er liðið vann 2-0 á föstudagskvöldið.
There's a plane flying over Selhurst Park tonight before kickoff between @Arsenal and @CPFC that has a banner attached about kicking rapists off the pitch. #unexpected pic.twitter.com/S3soOg5NOP
— (@OperaCreep) August 5, 2022
Ekki eru allir Arsenal-stuðningsmenn sáttir við það en á borðanum sem var flogið yfir Selhurst Park á föstudagskvöldið var ritað: „Sparkið nauðgurum af vellinum,“.
Kvenréttindasamtökin Level Up hafa tekið ábyrgð á borðanum sem var fjármagnaður af stuðningsmönnum Arsenal sem styðja mótmælin gegn Partey. The Athletic hefur eftir Mikey Franklin stuðningsmanni Arsenal:
„Sem Arsenal stuðningsmaður frá blautu barnsbeini vil ég sjá félagið okkar leiða deildina í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Hver sá sem beitir konur ofbeldi verður að sæta ábyrgð, burt séð frá því hversu mikilvægur hann er velgengni síns liðs,“
Enska úrvalsdeildin tók það skref í vikunni að skylda alla leikmenn til fræðslu um samþykki í kynlífi til að bregðast við þeim málum sem komið hafa upp að undanförnu og í von um að koma í veg fyrir að þau verði fleiri.