Stöðvarfjörður er fallegur staður, sem gaman er að koma á. Þetta er ekki stór staður en fólkinu líður þar vel og er alsælt með fallega þorpið sitt. Kirkja á staðnum, sem hefur verið afhelguð er meðal annars leigð út í gistingu fyrir ferðamenn. En það sem vekur athygli á staðnum er Salthússmarkaðurinn, frábær markaður þar sem hægt er að fá allt milli himins og jarðar, sem heimamenn hafa verið að dunda sér að búa til.
„Hér er bara alls kyns handverk frá heimafólki, margir flottir munir. Handverkið er mjög fjölbreytt því við erum svo ægilegra myndarleg í höndunum hérna á Stöðvarfirði. Það er margt listafólk hér, þetta er allt frá heimafólki hér,“ segir Sara Guðfinna Jakobsdóttir, handverkskona og hlær.

Markaðurinn hefur gengið með allra besta móti í sumar enda mikið af ferðamönnum á svæðinu.
„Jú, jú, þetta gengur bara alveg ljómandi vel. Við látum gott af okkur leiða, við leggjum pening í húsið hérna til að gera það upp. Svo styrkjum við eitt og annað þegar gert er upp eftir árið. Við erum bara að þessu fyrir samfélagið, gefum til samfélagsins. Við setjum peningana ekki undir kodda, við erum svo sterkefnuð, við þurfum þess ekki,“ segir Bryndís Ólafsdóttir, handverkskona skælbrosandi.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir er ein af þeim, sem er með vörur á markaðnum.
„Já, ég er meðal annars með þurrkaða sveppi, sem ég tíni sjálf og svo geri ég síróp eða svona hunang úr túnfífli. Svo prjóna ég og geri sultur og bara svona alls konar.“
