Á sunnudag lýsti lögreglan í Albuquerque eftir dökksilfruðum Volkswagen Jetta sem hún taldi tengjast morðinu á hinum 25 ára Naeem Hussain sem var skotinn til bana á föstudag.
Fyrr í kvöld greindi lögreglan svo frá handtöku eiganda bílsins en samkvæmt nýjustu upplýsingum fór handtaka hans fram í gær.
Maðurinn hefur nú verið nafngreindur sem Muhammad Syed en hann er 51 árs gamall maður frá Afghanistan. Hann er grunaður um að hafa skotið fjóra múslima til bana í Albuquerque.
Fjórir múslimar verið skotnir til bana í Albuquerque síðastliðna tíu mánuði
Á síðastliðnum tíu mánuðum hafa fjórir múslimar verið skotnir til bana í austurhluta Albuquerque-borgar. Morðin hafa vakið mikinn óhug fólks og eru þau talin hatursglæpir sem beinist gegn múslimum.
Þrír mannanna voru skotnir til bana á tveggja vikna tímabili sem náði yfir mánaðamót júlís og ágústs. Það voru hinn 25 ára Naeem Hussain, hinn 27 ára Afzaal Hussain og hinn 41 árs Aftab Hussein en allir þrír voru þeir frá Pakistan og tilheyrðu sömu mosku í Albuquerque.
Hinn 62 ára Mohammad Ahmadi frá Afghansistan var skotinn til bana rúmum níu mánuðum áður, í nóvember á síðasta ári.
Að sögn lögreglu var ráðist á mennina fyrirvaralaust og þeir skotnir til bana.