Aubameyang gekk í raðir Barcelona frá Arsenal í febrúar á þessu ári eftir að hafa lent uppi á kant við Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Lundúnaliðsins.
Hann hefur nú verið orðaður við endurkomu í ensku úrvalsdeildina undanfarna daga og þar hefur Chelsea verið nefnt til sögunnar sem liðið sem hann gæti farið í.
Á blaðamannafundi í gær fyrir leik Chelsea gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á morgun vildi Tuchel ekki tjá sig um mögulega komu framherjans til liðsins, en sagðist þó alltaf hafa notið þess að vinna með honum.
„Það voru aldrei nein vandræði í kringum hann hjá mér,“ sagði Tuchel.
„Þetta er alveg óskylt þeim sögusögnum sem eru í gangi núna, en ég naut þess mikið að vinna með Aubameyang þegar ég var hjá Dortmund. Sumir leikmenn verða alltaf þínir leikmenn af því að þú átt náið samband við þá og hann er einn af þeim leikmönnum.“
Aubameyang gekk í raðir Arsenal í janúar 2018 fyrir 56 milljónir punda, en yfirgaf félagið á frjálsri sölu eftir að hafa misst fyrirliðabandið sökum slæmrar hegðunnar.
„Hjá Dortmund var aldrei neitt vandamál,“ bætti Tuchel við um framherjann að lokum.