Liverpool átti í töluverðum vandræðum með að brjóta þétta vörn Crystal Palace aftur í kvöld en Daninn Joachim Andersen fór fyrir vörninni og átti hörkugóðan leik. Hann var mikið í baráttunni við Núñez sem lét þann danska fara töluvert í taugarnar á sér.
Það var þá á 57. mínútu sem Andersen hreytti einhverju í Núñez og sá úrúgvæski sneri sér við og virtist ætla að setja kassann í Danann en setti haus sinn einnig í andlit Andersens og fékk því réttilega að líta beint rautt spjald.
Darwin Nunez is only the 2nd Liverpool player to be shown a red card on his home PL debut for the club, after Joe Cole (v Arsenal in August 2010) pic.twitter.com/vb7b3BvkTm
— Sky Sports Statto (@SkySportsStatto) August 15, 2022
Spennustigið hefur eitthvað farið með þann úrúgvæska og allar líkur eru á að hann fari í þriggja leikja bann, líkt og venjan er þegar um ofbeldisbrot eru að ræða.
Hann er aðeins annar leikmaður Liverpool í sögunni sem fær að líta beint rautt spjald í sínum fyrsta leik á Anfield. Hinn var Joe Cole, sem kom frítt til Liverpool frá Chelsea sumarið 2010.
Hann fékk að líta beint rautt spjald fyrir að tækla Laurent Koscielny í sköflunginn í leik gegn Arsenal í ágúst 2010. Þeim leik lauk einnig með 1-1 jafntefli.