Um er að ræða fjárhæðir sem Rúrik Gíslason, velgjörðasendiherra SOS á Íslandi, vann sér inn í spurninga- og þrautaþáttum þar sem verðlaunafé keppenda rennur til góðgerðarmála.
Rúrik kaus að láta vinningsfé sitt í umræddum sjónvarpsþáttum í Þýskalandi renna til SOS á Íslandi. Um er að ræða þrjár greiðslur, rúmar 41 þúsund krónur, rúmar 462 þúsund krónur og rúmar 1,6 milljónir króna. Frá þessu er greint á vef SOS Barnaþorpa.
Þar segur að upphæðinni verði ráðstafað í fjölskyldueflingu SOS í Malaví sem SOS á Íslandi er í ábyrgð fyrir og heimsótti Rúrik einmitt verkefnasvæðið þar í landi í janúar á þessu ári.
Rúrik vann hæstu fjárhæðina í spurninga- og þrautaþættinum Hirschhausens Quiz des Menschen sem sýndur var í maí á sjónvarpsstöðinni Das Erste, 1,6 milljónir króna. Þar gekk á ýmsu eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði frá keppninni „Flöskuorgelið".
Rúrik fékk það verkefni að spila lagið „Seven Nation Army" eftir hljómsveitina „The White Stripes" á flöskur sem fylltar voru með mismiklu magni af vatni. Svo ákafur var Rúrik í tónlistarflutningi sínum að hann braut eina flöskuna.