Hópur árásarmanna réðust inn á Hayat-hótelið í Mogadishu í fyrrakvöld vopnaðir byssum og sprengdu sprengjur. Í kjölfarið sendu þeir frá sér tilkynningu þar sem þeir hótuðu að drepa alla gestina. Öryggissveitir sómalska hersins brugðust við árásinni og létu sprengjum rigna á hótelið á meðan árásarmennirnir byrgðu sig inni í hótelinu.
Rúmum þrjátíu klukkustundum náði herinn að yfirbuga árásarmennina. Ismael Abdi, hótelstjóri Hayat hótels, sagði við AP að þó umsátri árásarmannanna væri lokið væru öryggissveitir enn að vinna að því að tæma svæðið. En hótelið er illa farið eftir að öryggissveitir hersins létu sprengjum rigna yfir það í umsátrinu.
Þekkt hryðjuverkasamtök hafa lýst yfir ábyrgð
Lögreglan hefur ekki enn gefið nákvæma útskýringu á því hvernig árásin átti sér stað og hvernig henni vatt fram. Þá er ekki heldur ljóst hvernig árásarmennirnir komust inn í hótelið.
Hryðjuverkasamtökin al-Shabab, sem tengjast al-Qaida böndum, hafa hins vegar lýst því yfir að þau beri ábyrgð á árásinni sem er sú nýjasta í röð árása á staði sem embættismenn stjórnvalda hafa heimsótt.
Árásin á hótelið er jafnframt fyrsta hryðjuverkaárásin í Mogadishu frá því Hassan Sheikh Mohamud, forseti Sómalíu, tók við stjórn landsins í maí eftir stjórnarkreppu.
