Alexander tilkynnti í maí að hann væri hættur í handbolta en hann varð 42 ára í síðasta mánuði. Hann lék síðast fyrir Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni en alls lék hann fyrir sjö félög á glæstum ferli. Hann spilaði 186 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 725 mörk. Hann kveðst afar stoltur af ferlinum.
„Það eru að sjálfsögðu Ólympíuleikarnir 2008 [sem standa upp úr] og brons á EM 2010. Svo eru nokkrir titlar með Rhein-Neckar Löwen, Evrópukeppni og Þýskalandsmeistaratitlar. Þetta er eitthvað til að skoða þegar maður horfir til baka,“ segir Alexander.
Uppgjöf ekki til
Alexander glímdi við þrálát axlarmeiðsli á ferlinum og tók sér pásu frá landsliðinu vegna álags frá 2016 til 2020. Hann spilaði oft í gegnum meiðslin en aðspurður hvernig hann færi að því sagði hann:
„Ég veit það ekki alveg sjálfur. Þetta voru mikil meiðsli í öxlinni, sem var aðaldæmið, en maður þarf bara að vinna með það og reyna að styrkja öxlina og líkamann. Að gefast aldrei upp, það er bara málið,“
Rússíbanareið með Rhein-Neckar

Lengst af lék Alexander með Rhein-Neckar Löwen á sínum ferli, árin 2012 til 2021. Þar vann hann tvo þýska meistaratitla, 2016 og 2017, einn bikartitil árið 2018 og Evrópudeildina 2013. Þann síðastnefnda vann hann undir stjórn íslenska landsliðsþjálfarans Guðmundar Guðmundssonar.
Þar er hann goðsögn og var innvígður í frægðarhöll félagsins í fyrra. Treyja hans, númer 32, var sett upp í rjáfur og mun því enginn bera þá tölu á bakinu hjá félaginu framar.
„Það var allt saman mjög skemmtilegt en á sama tíma mjög erfitt. Það voru margir leikir og mikil ferðalög, maður vann og tapaði stórum leikjum, vann titla og tapaði titlum. Þetta var risastór rússibani sem fór upp og niður. Þess vegna er ég mjög glaður að komast upp í þak á SAP Arena,“
„Þetta er lífið mitt og aðalpunkturinn í handboltanum, ég var þarna í átta og hálft ár og þess vegna er þetta geggjað,“ segir Alexander en viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.