Leikmenn United áttu að hittast á Lowry hótelinu í Salford í Manchester í dag og vera þar með liðsfundi fram að leiknum í kvöld sem hefst klukkan 19.00.
Samkvæmt Manchester Evening News voru nú þegar einhverjir stuðningsmenn United byrjaðir að safnast saman fyrir utan hótelið klukkan 13 í dag og því var ákveðið í flýti að aflýsa liðsfundinum á hótelinu af öryggisástæðum. Er hópamyndunin talin tengjast fyrirhuguðum mótmælum stuðningsmannanna fyrir utan leikvang liðsins í kvöld.
Mögulegt er að liðsfundurinn fari þess í stað fram á Old Trafford, líkt og gert var fyrir síðasta heimaleik liðsins en það hefur ekki fengist staðfest. Leikmenn United hafa í áraraðir dvalið saman á Lowry hótelinu í aðdraganda heimaleikja liðsins.
Stuðningsmenn United ætla að mótmæla eignarhaldi Glazer fjölskyldunnar með því að mæta ekki á Old Trafford í kvöld heldur halda sér fyrir utan leikvöllinn á meðan leiknum stendur en ekki stóð til samkvæmt upprunalegu plani að stuðningsmennirnir myndu trufla liðsfund United líka.