„Venjulegur einstaklingur myndi spara svona í kringum 30.000 á ári í færslugjöld og árgjöld. Og þessir hærri vextir sem við erum að borga ef fólk er hjá okkur er það tekjuaukning um 40.000 á ári,“ segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Indó.
Við þetta bætist að Indó tekur út gengisálagningu þegar verslað er hjá erlendum netverslunum, þannig að allt í allt segir Haukur að einstaklingur geti fengið til baka allt að 72.000 krónur á ári.
Hér að ofan má sjá viðtal við Hauk sem sýnt var í Íslandi í dag í gær. Þar var einnig fjallað um ýmislegt annað ofarlega á baugi í íslensku samfélagi, en viðtalið við Hauk hefst á mínútu fjögur.

Fyrsti sparisjóðurinn í hálfa öld
Hugmyndin að bankanum kviknaði hjá Hauki og Tryggva Birni Davíðssyni viðskiptafélaga hans fyrir fjórum árum. Nú hafa þeir sótt talsverða fjárfestingu og starfsfólkið telur á annan tug.
„Þetta er töluvert meira mál en við héldum í upphafi. En þetta hefur verið skemmtilegt, því þetta hefur ekkert verið gert áður, eða það eru 50 ár síðan þetta var gert síðan. Það sem við höfum líka lært er hvað það er til mikið af færu fólki sem hefur gengið til liðs við okkur. Og hvað þörfin og áhuginn fyrir þessu er mikill úti í samfélaginu,“ segir Haukur.
Jæja, búinn að millifæra allan peninginn minn á indó reikninginn minn og byrjaður að nota kortið! pic.twitter.com/7bAbw5bPSO
— Hlynur Hallgríms (@hlynur) August 28, 2022
Samfélagsbankinn Indó er strangt til tekið ekki orðinn banki, en hann er orðinn sparisjóður – nánar tiltekið fyrsti sparisjóðurinn sem er stofnaður á Íslandi frá 1972. Síðan ætlar bankinn að fikra sig áfram í átt að því að veita lán. Að lokum á þetta að vera það sem hefur verið kallað „áskorendabanki” þ.e. banki sem skorar á hina bankana og er með minni yfirbyggingu; eins og Haukur segir engar risahöfuðstöðvar, heldur skrifstofurými fyrir ofan bræðurna Ormsson sem dugar vel.
Indó á einnig að vera samfélagsbanki, þar sem framlög til samfélagsmála eru meira hlutfall af hagnaði en hjá öðrum bönkum. Seðlabanki Íslands veitti indó leyfi til að starfa sem sparisjóður í febrúar en sparisjóðurinn tryggði sér tæplega 600 milljóna króna fjármögnun síðastliðið haust. Á meðal stærri fjárfesta er Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi UENO, sem síðar var selt til Twitter.