Körfubolti

Giannis fór mikinn í stórsigri Grikkja

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gríska goðið skoraði 41 stig.
Gríska goðið skoraði 41 stig. Mattia Ozbot/Getty Images

Nóg var um að vera fyrri hluta dags á Evrópumóti karla í körfubolta, EuroBasket, sem fram fer í Tékklandi, Georgíu, Ítalíu og Þýskalandi. Línur tóku að skýrast fyrir framhaldið.

Tyrkir fóru langt með að tryggja sig áfram í A-riðli keppninnar sem leikinn er í Georgíu. Þeir unnu 15 stiga sigur, 78-63 á Belgum snemma í dag. Tyrkir leiða riðilinn með sjö stig ásamt Spáni sem rúllaði yfir Svartfjalland, 82-65.

Belgar eru með sex stig, líkt og Svartfjallaland, en neðstu liðin tvö, Georgía og Búlgaría mætast í kvöld. Georgía er með fjögur stig en Búlgarar reka lestina með þrjú.

Í B-riðli tryggðu Frakkar farseðil sinn í útsláttarkeppnina með 81-68 sigri á Bosníu. Þýskaland og Slóvenía eru einnig komin áfram í næstu umferð en Ungverjar, sem töpuðu fyrir Litáen 87-64, eru úr leik.

Litáen hélt með sigrinum vonum sínum um sæti í 16-liða úrslitum á lífi en þeir munu berjast um lokasætið í útsláttarkeppninni við Bosníu. Í kvöld mætast Þýskaland og Slóvenía í leik sem gætu haft töluvert að segja um hverjir andstæðingar þeirra verða í 16-liða úrslitum.

Bretar töpuðu fjórða leik sínum af fjórum í C-riðli. Eistar léku sér að þeim og unnu 32 stiga sigur, 94-62, sem var þeirra fyrsti á mótinu. Úkraína, Grikkland og Króatía eru öll örugg áfram en Eistar keppa við Ítalíu um lokasætið í 16-liða úrslitum.

Giannis Antetokounmpo fór mikinn fyrir Grikkina sem unnu 99-79 sigur á Úkraínu. Leikurinn var jafn framan af en Grikkirnir skoruðu 32 stig gegn ellefu í þriðja leikhluta, þar af var Giannis með 15, og eftir það var öllum ljóst að Grikkir myndu fagna sigri. Giannis skoraði 41 stig í tuttugu stiga sigri Grikkja.

Í kvöld mætast Ítalía og Króatía í grannaslag en sigur fer langt með að fleyta Ítölum áfram þar sem þeir eiga leik við Breta á fimmtudag.

Í D-riðli tryggði Pólland sæti sitt í 16-liða úrslitum með 75-69 sigri á Hollandi en þeir hollensku eru jafnframt úr leik eftir tapið. Finnar og Tékkar áttust við, þar sem þeir finnsku höfðu betur 98-88 og eru með sex stig í riðlinum líkt og Serbía. Ísrael er í fjórða sæti með fimm stig en Tékkar og Hollendingar eru með fjögur.

Í kvöld mætast Ísrael og Serbía, en Serbar hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa og eru öruggir áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×