Körfubolti

Doncic kom meisturunum aftur á sigurbraut | Jókerinn atkvæðamestur í sigri Serba

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luka Doncic var allt í öllu í sóknarleik Slóvena í kvöld.
Luka Doncic var allt í öllu í sóknarleik Slóvena í kvöld. Alexander Scheuber/Getty Images

Fjórum seinustu leikjum kvöldsins á Evrópumótinu í körfubolta er nú lokið. Luka Doncic dró vagninn fyrir ríkjandi meistara Slóvena er liðið vann átta stiga sigur gegn Þjóðverjum, 88-80, og Nikola Jokic var atkvæðamestur í liði Serba er liðið vann 11 stiga sigur gegn Ísrael, 89-78.

Eftir óvænt tap gegn Bosníu og Hersegóvínu í seinustu umferð þurftu Slóvenar á sigri að halda gegn Þjóðverjum í kvöld til að koma sér aftur meðal efstu liða í B-riðli.

Luka Doncic dró vagninn fyrir liðið sem leiddi í 44-36 og vann að lokum átta stiga sigur, 88-80. Doncic skoraði 36 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Þá komu Serbar sér á topp D-riðils er liðið vann góðan 11 stiga sigur gegn Ísrael, 89-78. Nikola Jokic var eins og áður segir atkvæðamestur í liði Serba með 29 stig, 11 fráköst og fimm stoðsendingar, en Serbar hafa unnið alla leiki sína á mótinu til þessa og tróna á toppi D-riðils.

Að lokum vann Búlgaría 12 stiga sigur gegn Georgíu, 92-80, og Ítalir unnu nauman fimm stiga sigur gegn Króötum, 81-76.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×