Þetta kemur fram í grein eftir ráðherrann sem birtist á fréttavefnum Bæjarins besta í dag í tilefni af heimsókn ríkisstjórnarinnar til Vestfjarða í síðustu viku. Þar fer hann meðal annars yfir þær úrbætur sem eru að verða í samgöngumálum fjórðungsins með opnun Dýrafjarðarganga og uppbyggingu nýrra vega um Gufudalssveit og yfir Dynjandisheiði.
„Mikilvægur hlekkur í hringtengingunni með bættum vegasamgöngum á milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða eru ferjusiglingar yfir Breiðafjörðinn. Vonir standa til þess að Vegagerðin fái nýtt skip til landsins um áramótin í stað Baldurs. Tímabært er að nýtt skip taki við þjónustunni þar sem núverandi skip er barn síns tíma. Á meðan beðið er eftir nýju skipi verður tryggt að dráttarbátur verði til staðar á Breiðafirði,“ segir Sigurður Ingi í grein sinni.

Forystumenn sveitarfélaga og atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum hafa á undanförnum árum ítrekað krafist úrbóta í ferjumálum Breiðafjarðar, síðast í júnímánuði í sumar þegar Baldur varð vélarvana skammt utan við Stykkishólm með yfir eitthundrað manns um borð. Sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjörður sendu þá frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem minnt var á að margoft hefði verið bent á það öryggisleysi sem fylgdi því að vera með gamalt skip í siglingum yfir Breiðafjörð sem hefði ítrekað bilað.
„Að leggja líf fólks í hættu við að sigla með þessu skipi er algjörlega óboðlegt og á ekki að líðast með nokkru móti,“ sagði í yfirlýsingu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.
„Nú er nóg komið og stjórnvöld verða að bregðast við með tafarlausum úrbótum,“ sögðu sveitarfélögin.
Baldur varð einnig vélarvana í mars 2021 og þà voru þessar myndir teknar úr þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar Árni Friðriksson dró hann í land:
Formaður Samtaka atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum lýsti fyrir tveimur árum mikilvægi ferjusiglinganna fyrir samfélögin þar í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 frá Brjánslæk á Barðaströnd, sem sjá má hér: