„Þetta voru tvö stig, frammistaðan lengst af hrikalega góð og ég var ánægður með okkur í dag. Við fylgdum leikáætluninni nánast allan leikinn og vorum flottir,“ sagði Einar eftir leik.
Fram keyrði stíft í bakið á Selfossi sem skilaði mörgum mörkum úr hraðaupphlaupum. Þessi leikstíll er kominn til að vera hjá Fram segir Einar.
„Við erum búnir að djöflast í þessu á undirbúningstímabilinu með misjöfnum árangri. Þetta gekk mjög vel í fyrri hálfleik en svo breyttist takturinn í leiknum í seinni hálfleik. Við vorum svolítið oft manni færri. Ég hefði viljað skora fleiri mörk. Við klikkuðum á upplögðum færum í upphafi seinni hálfleiks. Við fengum dauðafæri á eftir dauðafæri og hefðum getað slátrað leiknum. En við vorum með leikinn í okkar höndum og sigurinn var öruggur,“ sagði Einar.
„En við eigum helling inni þrátt fyrir að mér hafi fundist við yfirspila Selfoss á köflum í dag.“
Fram er með breiðan leikmannahóp og Einar dreifði álaginu vel í leiknum í kvöld.
„Við erum með fullt af mönnum og svo eru líka menn utan hóps sem leggja örugglega eitthvað í púkkið í vetur. Við erum í þokkalegu standi en eigum eftir að komast í betra stand. Við erum með fullt af mönnum sem geta hlaupið og spilað vörn og sókn,“ sagði Einar að endingu.