Að venju er fjárlagafrumvarpið fyrsta mál á dagskrá Alþingis. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælir fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á fimmtudag en í kynningu á frumvarpinu í gær kemur fram að áætlaður halli á rekstri ríkissjóðs á næsta ári er 89 milljarðar króna. Stærstur hluti ríkisútgjalda, eða 30,8 prósent, fer til heilbrigðismála og verða þau aukin um 12,2 milljarða á næsta ári. Næst stærsti útgjaldaliðurinn er síðan félags-, húsnæðis- og tryggingamál eða 26,7 prósent.
Helstu aðgerðir til tekjuaukningar á næsta ári felast í lækkun afsláttar af tollum í fríhöfnum sem skila á um 700 milljónum í ríkissjóð. Breytt vörugjöld á bifreiðar skila ríkissjóði 2,7 milljörðum og aukin gjaldtaka á rafmagns- og tvinn bíla skilar 2,2 milljörðum króna. Þá ætar ríkisstjórnin að draga úr fjárfestingum upp á 16,6 prósent til að vinna gegn þennslu. Það yrði annað árið í röð sem ríkið dregur í fjárfestingum en framlög til þeirra voru lækkuð um 17,3 prósent á þessu ári.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Íslendinga stadda á mjög snúnum tímum í efnahagsmálum heimsins. Þar verði að taka á verðbólgunni.
„Það er risastórt hagsmunamál íslensks almennings að við náum tökum á verðbólgunni. Þannig að þetta frumvarp felur ekki í sér jafn mikla aukingu framlaga til ólíkra málaflokka og fyrri frumvörp sem við höfum séð. Hér er aukin tekjuöflun, hér er verið að fresta framkvæmdum og hér er ákveðið aðhald þótt það sé hóflegt,“ segir forsætisráðherra.
Athygli vekur að stofnframlög til almenna íbúðakerfisins til að auka framboð á húsnæði eru lækkuð um tvo milljarða króna frá þessu ári en sérstakar aðgerðir í þeim efnum boðaðar síðar. Þannig mætti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á fund hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í hádeginu þar sem farið var yfir gerð rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032 um 20 þúsund íbúðir.
Katrín segir tímabundin framlög til almenna húsnæðiskerfisins falla niður. Það standi yfir vinna þar sem fjárþörf málaflokksins verði metin.
„Við erum auðvitað búin að vera að auka þessar félagslegu áherslur í þessum málaflokki. Það mun halda áfram. En það liggur líka fyrir að endanlegar tölur eru ekki tilbúnar hvað þetta varðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir.