Handbolti

„Vandamálið var að við spiluðum í þrjátíu mínútur en ekki sextíu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlos Martin Santos á hliðarlínunni á Hlíðarenda í kvöld.
Carlos Martin Santos á hliðarlínunni á Hlíðarenda í kvöld. vísir/hulda margrét

Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, sagði að fyrri og seinni hálfleikurinn gegn Val hefði verið eins og svart og hvítt.

Harðarmenn voru þrettán mörkum undir í hálfleik, 22-9, en tóku sig taki í seinni hálfleiknum og unnu hann, 19-16. Leikurinn, sem var sá fyrsti í efstu deild í sögu Harðar, tapaðist hins vegar, 38-28.

„Fyrir okkur voru þetta tveir leikir; fyrri hálfleikurinn og seinni hálfleikurinn. Í fyrri hálfleik vorum við ekki hérna í Origo-höllinni en í þeim seinni reyndum við og sýndum ýmislegt. Þetta var svolítið langt frá því sem þú þarft að hafa á þessu getustigi en við erum að vinna í því,“ sagði Carlos við Vísi eftir leik.

Hann segir að sínir menn hafi þjáðst af hálfgerðum sviðsskrekk í fyrri hálfleik. „Strákarnir eru nýir í þessari deild og voru að spila gegn meisturum síðustu tveggja tímabila. Þetta var hugarfarið hjá strákunum að spila í þessu húsi gegn þessu liði en nokkuð annað,“ sagði Carlos.

„Valur er með mjög gott lið, spila góða vörn, eru hraðir og framkvæma einfalda hluti í sókninni.“

Carlos segist sáttur með hvað Harðarmenn sýndu í nánast ómögulegri stöðu í seinni hálfleik.

„Í fyrri hálfleik vorum við ekki hérna en í þeim seinni reyndum við að berjast við þá. Það er gott fyrir okkur að spila við þessi lið á þessu getustigi. En vandamálið var að við spiluðum í þrjátíu mínútur en ekki sextíu,“ sagði Carlos að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×