Aron og félagar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik og staðan þegar gengið var til búningsherbergja var 16-19, Álaborg í vil.
Gestirnir frá Álaborg náðu fljótt sex marka forskoti í síðari hálfleik og létu forystuna aldrei af hendi. Liðið vann að lokum sex marka sigur, 34-28, en Aron skoraði tvö mörk fyrir Álaborgarliðið.
Álaborg er því enn með fullt hús stiga eftir fjóra leiki og trónir á toppnum í dönsku úrvalsdeildinni. Skjern situr hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með fimm stig.
Þá gerði Íslendingalið Ribe-Esbjerg 33-33 jafntefli er liðið heimsótti Skanderborg í sömu deild skömmu síðar. Ágúst Elí Björgvinsson stóð vaktina í marki Ribe-Esbjerg og varði tíu skot. Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir liðið, en Arnar Birkir Hálfdánarson komst ekki á blað.