Fótbolti

Íslendingaliðin töpuðu stigum í toppbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt eru nú 12 stigum á eftir toppliði Molde.
Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt eru nú 12 stigum á eftir toppliði Molde. EPA-EFE/Mats Torbergsen

Íslendingaliðin Bodö/Glimt og Lilleström töpuðu bæði stigum í toppbaráttu norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt gerðu 1-1 jafntefli gegn Haugesund og Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar hans í Lilleström máttu þola 3-1 tap gegn Rosenborg.

Alfons var á sínum stað í byrjunarliði Bodö/Glimt er liðið tók á mótu Haugesund. Hann lék rúmlega klukkutíma áður en hann var tekinn af velli, en þá var staðan þegar orðin 1-1 eftir sitthvort markið með stuttu millibili í síðari hálfleik.

Norsku meistararnir í Bodö/Glimt sitja nú í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig eftir 23 leiki, 12 stigum á eftir Molde sem trónir á topnnum og á einn leik til góða.

Þá kom Hólmbert Aron Friðjónsson inn á sem varamaður fyrir Lilleström þegar um 25 mínútur voru til leiksloka í 3-1 tapi liðsins gegn Rosenborg. Kristall Máni Ingason var ekki í leikmannahópi Rosenborg vegna meiðsla.

Rosenborg situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 43 stig, einu stigi minna en Lilleström sem situr í öðru sæti.

Að lokum voru Íslendingar í eldlínunni í þremur öðrum leikjum í norska boltanum í dag. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð vaktina í marki Viking er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Tromsö, Brynjólfur Darri Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund er liðið tapaði 4-1 gegn Stromsgodset og Brynjar Ingi Bjarnason var ónotaður varamaður í 4-0 sigri Vålerenga gegn Sandefjord.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×