Innlent

Miklar hita­sviptingar gætu fylgt haust­lægð um helgina

Kjartan Kjartansson skrifar
Á Egilsstöðum gæti hitinn lækkað um tveggja stafa tölu frá laugardegi til sunnudags.
Á Egilsstöðum gæti hitinn lækkað um tveggja stafa tölu frá laugardegi til sunnudags. Vísir/Vilhelm

Hiti gæti náð tuttugu gráðum einhvers staðar á Austurlandi þegar haustlægð nálgast landið á laugardag. Á aðfaranótt sunnudags fara hins vegar kuldaskil yfir landið og gæti hitinn þá snarlækkað.

Lægðin á að nálgast úr vestri og dýpka við Austur-Grænland norður af Vestfjörðum á laugardag, að því er segir í pistli Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, á vefsíðunni Bliku. Storm gæti gert af suðvestri um stóran hluta landsins seinni partinn á laugardag. Einhvers staðar á Austurlandi gæti hitinn náð tuttugu gráðum í snörpum hnjúkaþey á sama tíma og rignir vestanlands.

Því er spáð að lægðin dýpki enn á sunnudag. Kuldaskil fari yfir um nóttina og kalt loft úr norðvestri ryðjist yfir landið með miklum sviptingum í hita. Blika spáir þannig sextán gráðum á Egilsstöðum á laugardag en aðeins fjórum gráðum daginn eftir.

Snjóað gæti í fjöllum norðaustanlands og líklegt er talið að ryðja þurfi Fjarðarheiði, og mögulega fleiri fjallvegi, í fyrsta skipti þetta haustið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×