Handbolti

Sjö hægri 1. umferðar: Stofnunin Hanna, vörutalning og árás í Kórnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olís-deild kvenna er farin af stað.
Olís-deild kvenna er farin af stað.

Keppni í Olís-deild kvenna í handbolta hófst í síðustu viku. Vísir tekur saman sjö eftirtektarverð atriði úr umferðinni.

Stjarnan skellti Íslandsmeisturum Fram í upphafsleik tímabilsins, Valur kjöldró Hauka í KFUK-slagnum, nýliðar Selfoss unnu sjö marka sigur í Kórnum og KA/Þór fór stigalaust frá Eyjum.

Langþráð nýliðastig

Selfyssingar sýndu að þeim er alvara með því að fara í Kórinn og vinna flottan sjö marka sigur á HK-ingum, 25-32. Þetta var í fyrsta sinn í 921 dag sem nýliðar vinna leik í Olís-deild kvenna, eða síðan Afturelding sigraði HK 11. mars 2020. FH 2021 og Afturelding 2022 fengu ekki stig en Selfoss ætlar ekki að vera neitt fallbyssufóður. Katla María Magnúsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir áttu stórleik og Ásdís Þóra Ágústsdóttir styrkir þær vínrauðu mikið.

Síung Hanna

Hanna Guðrún Stefánsdóttir hóf sitt 28. tímabil í meistaraflokk með því að hjálpa Stjörnunni að vinna  sannfærandi sigur á Íslandsmeisturum Fram, 26-20. Hanna er fædd 1979 og er því 43 ára. Hún var fyrst í hóp í meistaraflokki 1995. Þá voru fæstar sem tóku þátt í leiknum í Mýrinni fæddar. Hanna er nánast orðin stofnun í íslenskri íþróttasögu og heldur áfram að skrifa sína ótrúlegu sögu.

Tölfræðingur umferðarinnar

Síðast þegar Ragnar Hermannsson þjálfaði meistaraflokk var HB Statz ekki til. Kannski gleymdist að segja honum frá tilvist HB Statz því Ragnar tók sjálfur tölfræði í leik Vals og Hauka. Hann var með blað og penna á hliðarlínunni og minnti um margt á starfsmann í vörutalningu. Vonandi er að gagnasöfnunin gagnist Haukum í næsta leik. Ekki er vanþörf á enda tapaði liðið með fimmtán mörkum gegn Val, 37-22.

Neyðaraðstoð til Fram

Öllum sem horfðu á leiki Fram gegn Val í Meistarakeppninni og Stjörnunni í upphafsleik Olís-deildarinnar mátti ljóst vera að meistararnir þurftu á hjálp að halda. Og þeir hafa sótt hana í formi tveggja erlendra skytta; Madeleine Lindholm frá Finnlandi og Tamöru Joicevic frá Svartfjallalandi. Það er eins gott fyrir Frammara að reynist öflugur liðsstyrkur ef þeir ætla að keppa að alvöru um titlana sem í boði eru.

Líkamsárás í Kórnum

Því miður fyrir Selfoss snerist stór hluti umræðunnar eftir sigurinn í Kórnum um brot Robertu Stropé á Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur. Á 11. mínútu kýldi Roberta Valgerði hreinlega kalda en slapp á einhvern óskiljanlegan hátt við rautt spjald. Brotið var með þeim ljótari sem sést hafa í langan tíma, Valgerður var borin af velli og tók ekki frekari þátt í leiknum. Dómarar landsins hafa eflaust vökulla auga með Robertu eftir þetta ógeðisbrot.

Engin Rut, ekkert partí en samt von

Rut Jónsdóttir var fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar KA/Þór mætti ÍBV í Eyjum. Eins og við mátti búast var á brattann að sækja fyrir Akureyringa sem mæta mikið breyttir til leiks frá síðustu árum. Eyjakonur voru alltaf með frumkvæðið og lengst af góða forystu. En Akureyringar gáfust ekki upp og aðeins einu marki munaði á liðunum þegar uppi var staðið, 28-27. Lokatölurnar eru svolítið villandi en KA/Þór sýndi að þær geta spjarað upp að vissu marki án Rutar.

Sannfærandi meistarakandítatar

Valur kemur inn í tímabilið sem sigursælasta liðið og gegn Haukum sýndu Hlíðarendastúlkur að bjartsýnin er á rökum reist. Valskonur voru gríðarlega sannfærandi á allan hátt; markvarslan var góð, vörnin öflug og sóknin skilvirk (73 prósent skotnýting og bara fimm tapaðir boltar). Hildigunnur Einarsdóttir fór á kostum á línunni og örvhentu leikmennirnir nutu sín vel. Valur á eftir að fá miklu stærri og erfiðari próf en frammistaðan á föstudaginn gefur góð fyrirheit.


Tengdar fréttir

Finnsk skytta til Fram

Íslands- og deildarmeistarar Fram hafa samið við finnsku skyttuna Madeleine Lindholm. Hún kemur til Fram frá Sjundeå í heimalandinu.

„Selfoss græðir á því og hún græðir á því“

Ásdís Þóra Ágústsdóttir kom að láni til Selfoss frá Val fyrir tímabilið í Olís-deildinni í handbolta og sérfræðingarnir í Seinni bylgjunni hafa mikla trú á að hún reynist nýliðunum dýrmæt.

„Þetta er líkamsárás“

Óskiljanlegt er að Roberta Stropé hafi sloppið við rautt spjald fyrir fólskulegt brot á Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur í leik HK og Selfoss í 1. umferð Olís-deildar kvenna. Þetta var mat sérfræðinga Seinni bylgjunnar.

Íslandsmeistararnir sækja liðsstyrk

Íslandsmeistarar Fram hafa sótt liðsstyrk í Tamara Joicevic, svartfellskri vinstri skyttu, sem mun leika með liðinu í komandi átökum í Olís-deild kvenna í vetur.

Valskonur einar um að fljúga frá Íslandi

Tvö íslensku liðanna sem leika í 2. umferð Evrópubikars kvenna í handbolta munu leika einvígi sín alfarið á heimavelli en bikarmeistarar Vals spila hins vegar báða leiki sína á útivelli.

Á­fram kvarnast úr leik­manna­hópi Ís­lands­meistaranna

Íslandsmeistarar Fram mættu með mikið breytt lið inn í tímabilið sem er nýhafið í Olís deild kvenna í handbolta. Það heldur áfram að kvarnast úr leikmannahópi liðsins en Jónína Hlín Hansdóttir hefur ákveðið að halda til Slóvakíu og stunda þar nám í dýralækningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×