Umfjöllun og viðtöl: Fram-Afturelding 28-26 | Framarar enn taplausir eftir þrjár umferðir

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Framarar gátu leyft sér að fagna vel og innilega í leikslok.
Framarar gátu leyft sér að fagna vel og innilega í leikslok. Vísir/Diego

Fram vann í kvöld sinn annan sigur í Olís-deild karla þetta tímabilið með sigri á Aftureldingu í Úlfarsárdal. Lokatölur 28-26, í kaflaskiptum spennutrylli.

Leikurinn var jafn fyrstu átta mínútur leiksins þar sem liðin skiptust á að skora, staðan 3-3. Þá stungu heimamenn fram úr. Hver boltinn á fætur öðrum lá í neti Aftureldingar á meðan ekkert gekk í sóknarleik liðsins. Erlendu leikmenn Fram, Marko Coric og Luka Vukicevic, voru öflugir á þessum kafla. Staðan 9-3 heimamönnum í vil og 19 mínútur liðnar, sem sagt Afturelding ekki búin að skora í tólf mínútur.

En þá snerist leikurinn algjörlega á hvolf. Þorsteinn Leó Gunnarsson, skytta Aftureldingar, kom þá aftur inn á eftir slakar upphafsmínútur. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði sex mörk á síðustu níu mínútum fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 12-13 fyrir Aftureldingu.

Allur seinni hálfleikurinn var líkt og fyrstu mínútur leiksins, hnífjafn. Bæði lið náðu aldrei meira en tveggja marka forystu sem skilaði sér í æsispennandi lokamínútum.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var Afturelding með tveggja marka forystu, 23-25. Fram skoraði þá þrjú mörk í röð og komið yfir. Skoruðu bæði lið sitt hvort markið áður en lokamínútan gekk í garð.

Á lokamínútunni fór rautt spjald á loft á Luka Vukicevic, leikmann Fram, fyrir að fara í andlitið á Blæ Hinrikssyni, leikmanni Aftureldingar. Þrátt fyrir að vera einum fleiri rann sókn Aftureldingar út í sandinn, en þeir áttu eftir að fá annað tækifæri. Þorsteinn Gauti Ragnarsson, leikmaður Fram, skaut í stöngina í sókn Fram í kjölfarið. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, tók þá leikhlé og stillti upp í lokasókn leiksins, að hann hélt, með tíu sekúndur eftir á klukkunni. Kjartan Þór Júlíusson, leikmaður Fram, fékk tveggja mínútna brottvísun þegar leikurinn átti að fara hefjast eftir leikhléið, þar sem Framarar voru of margir inn á.

Afturelding því tveimur mönnum fleiri. Ólafi Brim Stefánssyni, leikmanni Fram, tókst þó að stela boltanum af Blæ Hinrikssyni, leikmanni Aftureldingar og skora í autt markið hinu megin á vellinum. Fram fór því með tveggja marka sigur af hólmi, 28-26.

Af hverju vann Fram?

Framarar náðu einfaldlega yfirhöndinni á leiknum þegar það skipti mestu máli, í mjög svo kaflaskiptum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Líkt og áður hefur komið fram var þetta kaflaskiptur leikur og var frammistaða leikmanna í takt við það. Erlendu leikmenn Fram, Marko Coric og Luka Vukicevic, voru öflugustu leikmenn Fram í fyrri hálfleik og Þorsteinn Leó Gunnarsson Aftureldingar megin.

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, varði gríðarlega mikilvæga bolta undir lok leiksins og sömuleiðis skoraði Ólafur Brim Stefánsson, leikmaður Fram, þrjú af síðustu fimm mörkum Fram í leiknum, þegar allt var undir.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Aftureldingar á u.þ.b. 15 mínútna kafla í fyrri hálfleik er eitthvað sem á eiginlega ekki heima í efstu deild, en liðið skoraði aðeins þrjú mörk á fyrst 19 mínútum leiksins.

Hvað gerist næst?

Afturelding fær Gróttu í heimsókn í 4. umferð Olís-deildarinnar næsta fimmtudag. Fram fer í Kaplakrika sama dag og mætir FH. Báðir leikir hefjast klukkan 19:30.

Gunnar Magnússon: Eini skandalinn í þessu hvernig við vorum í byrjun leiks

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var eðlilega ósáttur með tapið í kvöld.Vísir/Diego

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, fannst fyrsta korterið hræðilegt af Aftureldingar hálfu í leiknum.

„Hrikalega vel stefndir í byrjun, svo kemur bara eitthvað stopp, klukkan stoppar í fimm til heillengi. Við bara kólnuðum og það fer algjörlega með okkur, það er alveg slökkt á okkur í 10-15 mínútur þegar leikurinn fer í gang. Bara hræðilegir. Það er eini skandalinn í þessu hvernig við vorum í byrjun leiks. En hvílíkur karakter í drengjunum að koma til baka. Það sýnir svona breytt hugarfar og hvað við erum orðnir sterkari andlega,“ og bætir við „bara hrikalega flott frammistaða í 45 mínútur.“

Lokamínútan var skrautleg en Afturelding átti tækifæri á að jafna leikinn tveimur mönnum fleiri með tíu sekúndur eftir af leiknum. Það tókst þó ekki.

„Þegar ég lagði þetta upp þá vorum við einum fleiri, en svo breyttist þetta hratt, auðvitað vorum við þrem fleiri. Blær veit alveg að hann átti bara að gefa boltann og ganga á næsta mann. En þetta er bara hluti af þessu. Blær er búinn að vera stórkostlegur í þessum þremur leikjum og ótrúlega stoltur af honum hvernig hann er búinn að mæta í þetta mót.“

„Við gerðum bara svo miklu fleiri mistök sem eru dýrari en þetta. Við erum með 5-6 tapaða bolta í hröðum upphlaupum, ruðningar og annað og misheppnaðar sendingar. Það var miklu dýrara en þessi einu mistök.“

Næsti leikur Aftureldingar er gegn Gróttu og er Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, hvergi banginn, þrátt fyrir aðeins eitt stig í fyrstu þrem umferðunum.

„Þetta snýst um að safna stigum. Við förum náttúrulega í þann leik til að ná í tvö stig og byggja ofan á þessa frammistöðu, eins og ég segi þrjár góðar frammistöður. Við höldum áfram og þurfum að bæta okkur bara leik fyrir leik og ég er ánægður með drengina. Þetta þvílíka hugarfar í þessu og baráttan og það sem þeir eru að gefa í þetta. Um leið og það koma smá sigrar þá kemur smá sjálfstraust og þá kannski fellur þetta fyrir okkur. Það er stutt á milli í þessu, þetta er síðasta sekúndan í öllum þrem leikjunum sem þetta snýst um.“

„Við höldum bara áfram og erum ekki að fara væla yfir þessu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira