Óundirbúinn fyrirspurnartími er nú á Alþingi og þar sat Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars fyrir svörun.
Guðmundur Ingi nýtti tækifærið og spurði hana út í frítekjumark almannatrygginga. Spurði hann Katrínu af hverju skerðingar á frítekjumarki færi ekki eftir launavísitölu. Vísaði hann í það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar nýttu sér svokallaðar hækjur með því að vísa hvern á annann vegna þessa máls.
Katrín fór þá í pontu og sagði að hún gæti verið sammála Guðmundi um það að margboðuð endurskoðun á almannatryggingakerfinu hafi tekið allt of langan tíma.
Horfa má á beina útsendingu frá Alþingi hér að neðan.
Guðmundur virtist ekki vera ánægður með svör Katrínar og sagði þar sem frítekjumark fylgdi ekki launavísitölu væru auknar skerðingar á því í kortunum.
„Þetta fólk má ekki við því,“ sagði Guðmundur. Hann styðst við hækjur í þingsal og tók þær með sér upp í pontu. Er hann sleppti orðinu datt önnur hækjan og rakst í hina, sem varð til þess að þær duttu báðar í gólfið með töluverðum látum.
„Sko, hækjurnar meira segja detta. Ég ætti kannski að lána ríkisstjórninni þær til að halda uppi kerfinu.“
Katrín kom þá aftur upp í pontu og vísaði til þess að eftir áramót væri von á frumvarpi um breytingar á almannatryggingakerfinu.
Háttvirtur þingmaður getur því ekki komið hér upp og dregið þá ályktun að ekkert sé að gerast, bæði miðað við söguna og það sem framundan, sagði Katrín.