Arthur kom til Liverpool á láni frá Juventus á lokadegi félagaskiptagluggans. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir liðið í 4-1 tapi fyrir Napoli í Meistaradeild Evrópu fyrr í þessum mánuði.
Hinn 26 ára Arthur hefur verið meiðslum hrjáður undanfarin ár og Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði fjölmiðla að hann þurfi að fara varlega með Brassann.
Eftir að Arthur heyrði þetta tók hann til óspilltra málanna og réði heilt teymi sem á að hjálpa honum að komast á völlinn og haldast þar. Í teyminu eru sjúkraþjálfari, næringarfræðingur og þrekþjálfari. Ekki má það minna vera.
Arthur vill greinilega gera allt sem hann getur til að komast í betra form og bað til dæmis um að fá að spila með varaliði Liverpool í bikarkeppni neðri deildarliða, svokölluðum Papa John's bikar. Hann var í byrjunarliði varaliðs Liverpool í leikjum gegn varaliði Leicester City og Rochdale.
Juventus keypti Arthur frá Barcelona sumarið 2020. Hann lék aðeins 63 leiki á tveimur tímabilum með Gömlu konunni. Arthur hefur leikið 22 leiki fyrir brasilíska landsliðið og var í lykilhlutverki þegar það varð Suður-Ameríkumeistari 2019.