Búast má við austan og suðaustan 5-13 m/s og einhverri vætu í öllum landshlutum en sums staðar norðan heiða verður dálítil slydda. Hiti verður á bilinu 1 til 10 stig, mildast syðst.
Í fyrramálið, eins og áður segir, kemur alldjúp lægð upp að Austurlandi og það gengur í norðan storm eða rok. Mikil slydda eða snjókoma verður á norðanverðu landinu, rigning við austurströndina en úrkomuminna sunnanlands. Varað hefur verið við éljagangi og sérstaklega slæmu ferðaveðri.
Veðrið gengur svo niður aðfaranótt mánudags og á mánudag, fyrst vestantil. Á þriðjudag er svo útlit fyrir suðaustan strekking með rigningu sunnan- og vestanlands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag: Gengur í norðan 18-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Mikil slydda eða snjókoma á norðanverðu landinu, rigning með austurströndinni, en úrkomuminna sunnanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast austast.
Á mánudag: Norðan 5-10 og bjartviðri sunnan- og vestanlands. Norðvestan 13-20 og snjókoma norðaustan- og austanlands framan af degi, en lægir þar og styttir upp síðdegis. Hiti kringum frostmark, en kólnar um kvöldið.
Á þriðjudag: Hægt vaxandi suðaustanátt og fer að rigna, fyrst vestantil en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hlýnandi veður, hiti 3 til 9 stig um kvöldið.
Á miðvikudag: Suðvestanátt og skúrir, en rigning um tíma austanlands. Hiti 2 til 8 stig.
Á fimmtudag: Austlæg átt og rigning með köflum, en úrkomulítið á Norðausturlandi. Hiti 1 til 6 stig.
Á föstudag: Útlit fyrir norðanátt með lítilsháttar slyddu eða snjókomu norðantil, en rigningu við austurströndina.