Veðurviðvaranir af öllum litum eru í gildi á landinu, rauð á Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi. Á vesturhluta landsins er gular viðvaranir í gildi en annars staða appelsínugular, eins og sjá má á myndinni.

Viðvaranirnar hófu að taka gildi í nótt og gilda fram á miðjan mánudagsmorgun. Versta veðrinu er spáð frá hádegi fram að miðnætti á norðausturhorni landsins. Með lægðinni er eins og áður segir rosalegri úrkomu spáð, sem mun falla að stórum hluta sem slydda eða snjókoma á láglendi.
Til fjalla verður snjóbylur, einkum á Norðausturlandi og hafa dýraeigendur því verið hvattir til að koma dýrum sínum í hús. Mikilli úrkomuákefð er spáð og gera má ráð fyrir meira en 10 mm/klst á Norðausturlandi í nokkrar klukkustundir. Miðað við magn úrkomu sem er spáð á svæðinu er í tilkynningu á vef Veðurstofunnar talið tilefni til að vara við aukinni skriðuhættu á Austurlandi og snjóflóðahættu á Norður- og Norðausturlandi en ekki er talin hætta í byggð.
Þá má búast við sandfoki eða grjótfoki suðaustanlands síðdegis og í kvöld þegar vindur nær þar hámarki.
Hægt er að fylgjast með lægðinni ganga yfir landið í beinni útsendingu hér fyrir neðan.