Morning Chalk Up staðfesti breytinguna en það var lengi vitað að CrossFit samtökin væru að leita að nýjum framtíðarstað fyrir heimsleikanna.
Þetta verður þriðji heimavöllur heimsleikanna í sögunni en til að byrja með voru leikarnir haldnir í Carson í Kaliforníu fylki. Þeir fluttu síðan til Madison árið 2017 og hafa farið fram þar fyrir utan kórónuveiruárið 2020.
Leikarnir fara fram í sjötta og síðasta skiptið í Madison á næsta ári.
Frá árinu 2024 til 2027 munu heimsleikarnir hafa aðalaðsetur í Birmingham Crossplex sem er fjölhæf íþróttahöll í miðbænum. Allar aðstæður eru góðar fyrir sjálfa íþróttakeppnina en menn hafa aftur á móti meiri áhyggjur af öðrum hlutum.
Alabama er eitt af suðurríkjunum og það er ljóst að hitinn gæti spilað enn stærra hlutverk á leikunum þar þó að það sé oft nógu heitt í Wisconsin fylki um mánaðamótin júlí-ágúst. Það er meðaltali fimm gráðu heitara þarna í Birmingham en í Madison og um leið hærra rakastig.

Það er ekki öllum sem lýst allt of vel á þessa breytingu. Madison hefur unnið hug og hjörtu flestra sem þangað hafa komið enda mjög hugguleg borg í norður Bandaríkjunum.
Nýi heimavöllur heimsleikanna er nefnilega einn sá hættulegasti í Bandaríkjunum ef marka má tölfræðilegar upplýsingum um fjölda glæpa og morða.
Umboðsmaðurinn Snorri Barón Jónsson, sem mun væntanlega eiga fullt af skjólstæðingum á komandi heimsleikum alveg eins og í ár setti spurningarmerki við þessar fréttir á samfélagsmiðlum sínum.
Snorri Barón deildi meðal annars upplýsingum um að borgin Birmingham í Alabama fylki hafi lengi verið við toppinn á lista yfir þær borgir í Bandaríkjunum þar sem mest eru um glæpi og morð.
Morning Chalk Up ræddi þessar breytingar í áhugaverðu myndbandi sem er aðgengilegt hér fyrir neðan en þar ræðir Lauren Kalil við þá Dex Hopkins og Brent Fikowski.