Stjórnvöld í Pjongjang sögðu frá því í gær að tilgangur ítrekaðra flugskeytatilrauna þeirra upp á síðkastið hafi verið að líkja eftir kjarnorkuárásum á skotmörk í Suður-Kóreu. Tilraunirnar hafi verið stjórnvöldum í Washington og Seúl viðvörun vegna heræfinga þeirra.
Moon Hong Sik, talsmaður suðurkóreska varnarmálaráðuneytisins, segir kjarnorkuhótanir norðanmanna afar alvarlegar. Eldflaugavarnarkerfi Suður-Kóreu ráði þó við að finna og stöðva þau eldflaugakerfi sem Norðurkóreumenn segjast hafa notað í tilraunum undanfarinna vikna, að því er AP-fréttastofan segir frá.
Sumir sérfræðingar vara þó við því að ný hljóðfrá stýriflaug Norðurkóreumanna kunni að geta brotist í gegnum varnir Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Ef Norðurkóreumenn skytu nokkrum flugskeytum frá nokkrum stöðum í einu kynni það að reynast bandalagsríkjunum erfitt að ná þeim öllum.
Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, vill styrkja varnir landsins. Rætt hefur verið um koma upp njósnagervihnöttum, eftirlitsdrónum og fleiri njósnatækjum til að fylgjast betur með nágrannaríkinu í norðri.
„Norður-Kórea hefur stöðugt unnið að þróun kjarnavopnagetu sinnar og ógnar nú ekki aðeins Suður-Kóreu heldur öllum heiminum en ég held að Norður-Kórea græði ekkert á kjarnorkusprengjum,“ sagði forsetinn.