Sport

Öruggur sigur hjá Ómari Inga, Gísla og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon nýtti öll fjögur skotin sín í leiknum.
Ómar Ingi Magnússon nýtti öll fjögur skotin sín í leiknum. vísir/Getty

Íslendingaliðið SC Magdeburg vann auðveldan átján marka sigur á ástralska félaginu Sydney University í fyrsta leik sínum í riðlakeppni heimsmeistarakeppni félagsliða sem hófst í dag í Sádí Arabíu.

SC Magdeburg vann leikinn 41-23 eftir að hafa verið 20-8 yfir í hálfleik. Það var ljóst í hvað stefndi þegar þýsku meistararnir komust í 6-0 í upphafi leiks.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir þýska liðið en þau komu öll af vítalínunni og öll í fyrri hálfleik. Hann spilaði í tæpar sautján mínútur í leiknum og átti einnig tvær stoðsendingar.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahópnum en var hvíldur fyrir framhaldið í mótinu. Gísli var í aðalhlutverki með íslenska landsliðinu í tveimur leikjum í síðustu viku.

Lukas Mertens var markahæstur með sjö mörk og Lucas Meister skoraði sex mörk.

Næsti leikur hjá Magdeburg er á móti þriðja liðinu í riðlinum sem eru heimamenn í Khaleej. Sá leikur er ekki fyrr en á fimmtudaginn en Khaleej og Sydney University mætast á morgun.  Efsta liðið í riðlinum fer í undanúrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×