Sýnt er frá sjóböðunum í innslaginu hér að ofan og sömuleiðis farið ítarlega yfir umhverfi vindorku hér á landi. Einnig er rætt við frumkvöðul verkefnisins sem Skúli er að mótmæla.
„Alveg galin staðsetning“
Skúli er ekki einn um að vera á móti vindmylluáformunum, flestir íbúar sem gert hafa athugasemdir eru það líka, en hann tekur sterkt til orða. Hann telur áformin einkennast af firringu, enda sé Hvalfjörðurinn í miðjum uppbyggingarfasa. Hvalfjörðurinn sé fyrst núna að vakna úr sínum dvala og komin þar vænleg þjónusta og uppbygging, sem er enn á byrjunarreit.

„Ég byrja á að segja að vindorka er áhugaverður kostur og eitthvað sem við eigum að vera að skoða öllu jafna. Hins vegar finnst mér þessi staðsetning alveg galin,“ segir Skúli.
„Það væri mikil skammsýni ef þetta yrði að veruleika. Auðvitað hef ég sjálfur hagsmuni, það gefur augaleið. En bara svo að við áttum okkur á stærðinni, þá erum við að tala um að byggja vindmyllur í um 600 metra hæð, sem rísa síðan 250 metra í viðbót. Þannig að þú ert kominn með vindmyllugarð í álíka hæð og Esjan, sem gnæfir yfir allt og alla. Þannig að ég held að það væri gríðarleg skammsýni að setja slíkan garð akkúrat hér. Ég held að það væru margir aðrir staðir sem væru kannski hentugri,“ segir Skúli.
Má ekki taka svona ákvarðanir einhliða
Ekkert liggur fyrir um það hvernig vindmyllurnar yrðu á endanum en á tölvuteikningum fréttastofu má sjá hvernig þetta gæti litið út.
„Ég held að menn myndu sjá eftir því samstundis og þetta væri risið. Þegar menn sæju raunveruleg áhrif þess. Þetta er ekki bara sjónmengun, þetta myndi líka hafa mikla hljóðmengun í för með sér. Ég held að þetta væru mikil mistök.“

Skúli bendir á að áformin um vindmyllurnar liggi í Hvalfjarðarsveit, norðanmegin við fjörðinn, en hans land liggur í Kjósarhreppi. Þar sem hagsmunir alls fjarðarins séu þó undir, þurfi að tryggja að hagsmunir beggja sveitarfélaga liggi fyrir. „Það gengur ekki að það sé hægt að taka svona afdrifaríkar ákvarðanir einhliða. Því held ég að það sé mikilvægt að stjórnvöld og sveitarfélög móti skýran ramma hvað þetta varðar,“ segir Skúli.