Handbolti

Birgir Steinn brotinn og frá í nokkrar vikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birgir Steinn Jónsson hefur verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar síðan hann kom til Gróttu 2020.
Birgir Steinn Jónsson hefur verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar síðan hann kom til Gróttu 2020. vísir/hulda margrét

Birgir Steinn Jónsson, leikmaður Gróttu, handarbrotnaði á æfingu liðsins á mánudaginn og verður frá keppni næstu vikurnar.

„Ég var bara á æfingu og lenti illa á höndinni með þeim afleiðingum að lítið bein í henni brotnaði. Þetta var bara slys,“ sagði Birgir við Vísi í dag. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið hann missir úr.

„Ég verð í gifsi í 3-4 vikur og svo kemur þetta í ljós. Ég hugsa að þetta séu 5-6 vikur en það fer allt eftir því hversu vel gengur.“

Birgir vonast til að ná einhverjum leikjum með Gróttu áður en hið venjubundna stórmótshlé verður gert á Olís-deildinni. En á meðan þurfa Seltirningar að spjara sig án hans og Birgir hefur fulla trú á að það takist.

„Við erum með hörku flott lið. Þótt það sé súrt að vera ekki með hef ég fulla trú á þessu liði. Ég hef engar áhyggjur af þessu.“

Birgir hefur skorað þrettán mörk í fjórum leikjum í Olís-deildinni í vetur.vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir að Grótta hafi byrjað tímabilið ágætlega er Birgir með báða fætur kyrfilega á jörðinni og tók út úr klisjubankanum, aðspurður um markmið Seltirninga í vetur.

„Við erum bara á ákveðinni vegferð. Ég veit þú vilt fá eitthvað en ég ætla bara að nota klisjurnar. Það er bara einn leikur í einu. Mér finnst við vera með það gott lið, jafnvel þótt ég sé ekki með, til að vinna öll lið í deildinni. En við getum líka tapað fyrir öllum liðum á vondum degi,“ sagði Birgir.

Hann er á sínu þriðja tímabili hjá Gróttu. Samstarfið hefur verið farsælt fyrir báða aðila og Birgir kveðst ánægður á Nesinu.

„Mér líður vel hérna, við fáum topp þjálfun og hérna er gott fólk. Stemmningin er góð og mætingin flott,“ sagði Birgir sem verður í stúkunni í nýja íþróttahúsinu í Úlfarsárdal á föstudaginn þegar Grótta sækir Fram heim. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×