Daniel Edmund Duggan (54) var handtekinn á föstudaginn en í frétt Reuters segir að dómsskjöl bendi til þess að hann verði mögulega framseldur til Bandaríkjanna eftir að yfirvöld þar báðu um að hann yrði handtekinn. Fyrir hvað er ekki ljóst og framsalsbeiðni hefur ekki verið lögð fram.
Ástæða þess að handtakan hefur vakið athygli er að yfirvöld í Bretlandi vöruðu nýverið við því að fyrrverandi flugmenn breska flughersins væru að vinna fyrir kínverska herinn og hjálpa til við þjálfun kínverskra flugmanna og við mótun áætlana fyrir átök gegn vestræna flugmenn.
Yfirvöld í Ástralíu eru einnig að rannsaka hvort fyrrverandi flugmenn flughers ríkisins hafa einnig verið að vinna í Kína.
Duggan flaug orrustuþotum í bandaríska landgönguliðinu og þjálfaði aðra flugmenn.
Samkvæmt heimildum Reuters er Duggan eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna vinnu hans í Kína. Hann flutti til Ástralíu eftir að hafa starfað í bandaríska flughernum í áratug. Þar stofnaði hann fyrirtæki sem heitir Top Gun Tasmania og réði hann orrustuflugmenn frá Bandaríkjunum og Bretlandi til að fljúga með ferðamenn í hraðfleygum þotum.
Hann flutti svo til Kína árið 2014 og seldi Top Gun Tasmania í kjölfarið. Reuters vísar í LinkedIn-prófíl Duggans og segir að þar komi fram að hann hafi unnið fyrir ráðgjafafyrirtæki í Kína sem hann stofnaði sjálfur.