Veitingastaður Domino‘s á Stjörnutorgi í Kringlunni hefur verið á sínum stað í 25 ár. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að búið væri að loka staðnum.
Í samtali við fréttastofu segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri Domino's, að ákvörðun um að loka staðnum hafi verið tekin fyrir nokkru síðan. Hins vegar átti það ekki að gerast fyrr en um miðjan nóvember. Kringlan þurfti afnot af bakherbergi veitingastaðarins sem hýsti allt tölvukerfi staðarins. Því var ákveðið að loka staðnum fyrr.
Starfsmenn útibúsins í Kringlunni eru með þeim vinsælustu hjá keðjunni. Magnús segir verslunarstjórann í Kringlunni, Nour Natan Ninir, vera með hæsta starfsaldur fyrirtækisins. Nour er þó ekki að yfirgefa Domino's heldur færist hann yfir í útibúið í Mjóddinni. Þar kemur hann til með að verða verslunarstjóri.
Tilkynnt var í maí á síðasta ári að ráðist yrði í miklar framkvæmdir á þriðju hæð Kringlunnar þar sem Stjörnutorg er staðsett. Framkvæmdatíminn verður allt að tvö ár en þá mun vera komin ný mathöll, breytt Ævintýraland og svokallaður búbblublómaskáli.