Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, samflokkskonu Sigurðar Inga í Framsóknarflokknum, um skemmtiferðaskip.
Þar spurði Halla Signý hvort að ráðherra hyggist taka til skoðunar lagasetningu um móttöku skemmtiferðaskipa hér á landi. Þá vildi Halla Signý einnig vita hvort að ráðherra hyggist leggja til bann við landtöku skemmtiferðaskipa utan hafna á Íslandi, og ef ekki, hver væru rökin fyrir því?

Mikill fjöldi skemmtiferðaskipa kemur hingað til lands á ári hverju. Sum hver sigla hringinn í kringum um landið. Þá eru dæmi um að farþegum skemmtiferðaskipa hafi verið hleypt frá borði utan hafna, eins og gerðist árið 2017 í friðlandinu á Hornströndum.
Fréttamanni Stöðvar 2 var vísað frá borði skemmtiferðaskipsins Le Boreal árið 2017 eftir að hann krafði skipstjóra skipsins um svör við því af hverju hann hleypti farþegum á land í friðlandinu á Hornströndum. Horfa má á umrædda frétt í spilaranum hér fyrir neðan.
Benti á ráðuneyti Guðlaugs Þórs
Í svari Sigurðar Inga við öðrum lið fyrirspurnar Höllu Signýjar segir að landtaka skipa utan hafnarsvæða falli ekki undir innviðaráðuneytið. Bendir hann henni á að senda fyrirspurn á umhverfis- orku og innviðaráðuneytið um málið, þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson ræður ríkjum.
Hvað varðar fyrri liðin segir Sigurður Ingi að skip sem séu stærri en 300 brúttótonn að stærð, fyrir utan varðskip og fiskiskip styttri en 45 metrar, þurfi að tilkynna komu sína til vaktstöðvar siglinga, með tilteknum fyrirvara.

Þó segir hann að Landhelgisgæslan hafi bent á að farþegaskip sem sigla milli hafna hér á landi fari ekki ávallt beina leið að næstu höfn. Þau sigli um firði í útsýnisferðum og hafi jafnvel viðkomu og hleypi farþegum í land án þess að leggja að höfn. Slíkar siglingar og viðkomur séu ekki tilkynningarskyldar.
Því viti vaktstöðin ekki alltaf um siglingaleiðir þessara skipa sem geti valdið hættu. Eðlilegt sé að þessi skip veiti vaktstöðinni upplýsingar um þá leið sem þau hyggjast fara.
Boðar frumvarp
Segir Sigurður Ingi að lagafrumvarp frá árinu 2003, sem ekki varð að lögum, hafi geymt ákvæði um að farþegaskip, 300 brúttótonn að stærð og stærri, sem sigla milli hafna hér á landi, skuli tilkynna vaktstöðinni um áætlaða leið að næstu höfn með tilteknum fyrirvara.
„Frumvarp þetta varð ekki að lögum en ráðherra hyggst mæla fyrir nýju frumvarpi á vorþingi sem hafi að geyma slíkt ákvæði.“