Powell hóf vegferð sína með bók Juliu Child í bloggformi árið 2002, þá að verða þrjátíu ára gömul, í lítilli íbúð sem hún deildi með eiginmanni sínum í Long Island í New York ríki. New York Times greina frá því að Powell hafi upplifað sig í mikilli tilvistarkreppu árið 2002 og hún hafi í raun neyðst til þess að gera eitthvað með líf sitt. Þaðan hafi hugmyndin að því að elda allar uppskriftir fyrrnefndrar bókað sprottið upp.
Á 365 dögum eldaði Powell 524 uppskriftir og átti hún sér dygga aðdáendur sem fylgdust grannt með því hvort að henni tækist markmið sitt, að klára uppskriftirnar innan árs. Henni tókst ætlunarverk sitt á endanum og áður en árinu lauk hafði bloggið fengið fjögur hundruð þúsund heimsóknir.
Árið 2009 kom út kvikmynd um vegferð Powell sem margir þekkja eflaust en myndin bar heitið „Julie&Julia“ og voru Amy Adams, Meryl Streep og Stanley Tucci í aðalhlutverkum ásamt fleirum. Kvikmyndin varð gífurlega vinsæl en hún var síðasta verk hins vinsæla leikstjóra og handritshöfundar, Noru Ephron. Ephron er til dæmis þekkt fyrir kvikmyndir á borð við „You‘ve Got Mail“ og „Sleepless in Seattle.“

Stiklu úr kvikmyndinni „Julie&Julia“ má sjá hér að ofan.