Fyrir leikinn í kvöld var Lazio í efsta sæti síns riðils með átta stig en Feyenoord og danska liðið Midtjylland voru með fimm stig í öðru og þriðja sæti.
Feyenoord og Lazio mættust í Rotterdam þar sem mikið var í húfi. Þar skoraði Santiago Gimenez eina mark leiksins á 64.mínútu og tryggði Feyenoord sigur.
Á sama tíma vann Midtjylland 2-0 sigur á Sturm Graz á heimavelli þar sem Anders Dreyer var hetja liðsins og skoraði bæði mörkin. Feyenoord endar því í efsta sæti F-riðils og fer beint í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar en Midtjylland nær öðru sætinu og fer í umspil gegn liði sem hafnaði í þriðja sæti Meistaradeildarinnar.
Í G-riðli var Freiburg búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins en þeir gerðu 1-1 jafntefli við Qarabag á útivelli í kvöld. Nantes stal hins vegar öðru sætinu af Qarabag með því að vinna Olympiacos á útivelli 2-0.
Í H-riðli fara Ferencvaros og Monaco áfram í keppninni. Ferencvaros tryggði sér efsta sætið þrátt fyrir 1-0 tap gegn Trabzonspor en Monaco náði öðru sæti eftir 4-1 sigur á Rauðu Stjörnunni.